Wednesday, March 11, 2009

Skattahækkanir Indriða í skjóli Steingríms J og VG

Indriði H. Þorláksson ,núverandi settur ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu og fyrrv. ríkisskattstjóri og skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu, fer mikinn þessa dagana og talar um að hækka þurfi skatta hér hressilega, ekki seinna en strax.

Álverin hér á landi fá einnig athygli Indriða en hann hefur haldið því fram að skatttekjur af þeim séu litlar. Þessu hefur verið hafnað með tilheyrandi rökum enda höfum við miklar skatttekjur, bæði beinar og óbeinar af starfsemi þeirra.

Í þessu samhengi er ágætt að rifja upp stærstu framkvæmd Íslandssögunnar, þ.e. virkjunarframkvæmdir við Kárahnjúka. Á þeim tíma var áðurnefndur Indriði ríkisskattstjóri. Þá var rangur aðili skyldaður til að halda eftir staðgreiðslu skatts launamannanna og var það gert á ábyrgð Indriða sem ríkisskattstjóra. Þetta leiðir síðan til þess að íslenska ríkið þarf að greiða til baka innheimtan tekjuskatt að upphæð 1.3 milljörðum króna auk vaxta, sem eru líka peningar! Með öðrum orðum fékk íslenska ríkið ekki krónu í tekjuskatt af vinnu nær flestra erlendra starfsmanna við þessa framkvæmd. Á sama tíma segir maðurinn að starfsemi og rekstur álvera skili litlum sem engum skatttekjum í ríkissjóð. Er þetta sómasamlegur málflutningur?

Um þessar mundir er margt fólk að missa vinnuna, tekur á sig skert starfshlutfall eða lægri laun Auk þess hefur matur ásamt annarri nauðsynjavöru hækkað mikið sem og afborganir lána. Við þurfum ekki á skattahækkunum Indriða að halda. Við gætum hins vegar haft talsverð not af þessum ríflega milljarði sem við urðum af vegna embættisafglapa hans.

Er það ekki almenn krafa í dag að menn axli ábyrgð á gjörðum sínum? Hvernig ætlar Indriði ráðuneytistjóri að axla ábyrgð sína á framangreindu klúðri? Ætlar Steingrímur J að hafa þennan mann í eftirdragi ef VG komast í næstu ríkisstjórn? Fólk á rétt á því að vita það. Eiga menn ekki að bera neina ábyrgð á gjörðum sínum af því þeir eru vinstri-sinnaðir og skýla pólitík sinni á bak við „embættismanna-grímuna“?
VAV

Monday, March 2, 2009

Norskur seðlabankastjóri, norsk króna og norskt loftvarnareftirlit, Steingrímur J og eitt stórt samsæri!!! Hvernig í ósköpunum stendur á að ekki var hægt að finna einn mann á Íslandi til að gegna stöðu seðlabankastjóra?? Þetta eru afar hughreystandi og góð skilaboð út í heim og til fólksins í landinu. Við getum ekki stjórnað okkar málum sjálf samkvæmt þessu. Núverandi ríkisstjórn hefur ekkert gert annað en að setja lög um að reka Davíð Oddsson og samþykkja önnur lög sem var búið að sammælast um áður. Ef þetta fólk verður áfram við stjórn er ekki langt í að við göngum í ESB. Sjálfstæði þjóðarinnar verður þannig lagt í þeirra hendur. Það er sorglegt að fylgjast með þessum andlausu stjórnmálamönnum eyða dýrmætum tíma í vitleysu.
VAV

Monday, February 23, 2009

Ég hef ákveðið að bjóða mig fram í 7. sæti prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík sem fer fram 13. og 14. mars næstkomandi.
Þetta blogg er fyrst og fremst ætlað að kynna mig og hvað ég stend fyrir.
Íslenska þjóðin stendur á tímamótum um þessar mundir. Taka þarf veigamiklar ákvarðanir næstu misserin um hvernig endurreisninni verður háttað. Tryggja þarf stöðu heimilanna í landinu og starfsumhverfi fyrirtækja.
Í þessu samhengi eru efnahags- og gjaldeyrismál efst á baugi. Í framhaldinu tekur meðal annars við hvort leiðin liggi í Evrópusambandið.
Sjálfur tel ég okkur best borgið utan sambandsins á eigin forsendum.
Við þurfum að horfa inn á við og nýta þann mikla kraft sem í þjóðinni býr. Með eljusemi og þrótti munum við rísa upp aftur „stétt með stétt" . Það gerum við með öðrum þjóðum á grundvelli sjálfstæðis okkar og frelsis í viðskiptum. Að þessu er ég tilbúinn að vinna.
VAV